Forsíða

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða starfar á vegum Heilbrigðisnefndar Vestfjarða og sér um að framfylgja lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, ásamt þeim reglugerðum sem settar eru samkvæmt lögunum, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglugerðum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast framkvæmd á. Því er ætlað að vinna að bættu heilbrigðiseftirliti á svæðinu, annast fræðslu fyrir almenning og efla samvinnu við önnur yfirvöld og aðila sem vinna að þessum málum. Umdæmi embættisins nær yfir Ísarfjarðarbæ, Bolungarvík, Súðavíkurhrepp, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhrepp, Reykhólahrepp, Strandabyggð, Kaldrananeshrepp og Árneshrepp. Við eftirlitið starfa tveir heilbrigðisfulltrúar í tveimur stöðugildum.

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða starfar skv. lögum nr 7/1998.  Heilbrigðis- og umhverfismál heyra undir  Umhverfisráðuneytið.  Undir ráðuneytið heyrir jafnframt Umhverfisstofnun sem skv. lögum nr. 7/1998 hefur yfirumsjón með heilbrigðis-eftirliti og umhverfiseftirliti sveitarfélaga.  Í yfirumsjón felst samræming heilbrigðiseftirlits þannig að framkvæmdin sé með sama hætti á landinu öllu. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð fræðsluefnis og upplýsa og fræða þá sem starfa að heilbrigðiseftirliti.

 

Matvælastofnun hóf störf 1. janúar 2008 þegar Landbúnaðarstofnun, matvælasvið Umhverfisstofnunar og matvælasvið Fiskistofu voru sameinuð undir einum hatti. Stofnunin starfar undir yfirstjórn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Matvælastofnun fer með yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga  og skal sjá um að vöktun og rannsóknir vegna þessa eftirlits séu framkvæmdar. Þá skal stofnunin vinna að samræmingu krafna sem gerðar eru til starfsemi á sviði matvælaeftirlits og að því að slíkum kröfum sé framfylgt. Til þess að stuðla sem best að því að þessu markmiði verði náð, gefur stofnunin út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um framkvæmdina sem heilbrigðisnefndum ber að fylgja.   Ekki urðu breytingar á störfum heilbrigðiseftirlits við þessar breytingar en hinsvegar krefst þetta fyrirkomulag meiri skipulagningar sameiginlegra funda þar sem yfirumsjón heilbrigðiseftirlits heyrir nú undir tvær stofnanir og tvö ráðuneyti. Eftir sem áður hefur heilbrigðiseftirlitið  eftirlit með matvælaframleiðslu annarri en fiskvinnslu og sláturhúsum og jafnframt með eftirlit á neytendamarkaði.

Það að tvær stofnanir sem heyra undir tvö ráðuneyti hafi yfirumsjón með starfsemi heilbrigðiseftirlitsins breytir í sjálfu sér engu varðandi starfsemina en gerir umhverfið útávið flóknara.  Meiri tími fer í samskipti við stofnanir og flækjustig eykst.  Að auki eru Matvælastofnun og Umhverfisstofnun með beint eftirlit með vissum atvinnurekstri úti á svæðunum.  Matvælastofnun er með eftirlit með mjólkurframleiðslu, kjötvinnslu og annarri frumvinnslu auk matvælaeftirlits með fiskvinnslu.  Umhverfisstofnun er með mengunareftirlit með förgun úrgangs, þ.e. brennslu og urðun, stóriðju s.s. kalkþörungaverksmiðjum, fiskimjölsverksmiðjum og olíubirgðastöðvar.

Bolungarvíkurkaupstaður annast bókhald og fjárreiður fyrir heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, þar með talið innheimta leyfisgjöld, sýnatökugjöld, og önnur sérverkefni fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Innheimtur eftirlitsgjalda er á vegum  sveitarfélaga á svæðinu.

Aðalstræti 12, 415 Bolungarvík, sími 4567087